Ungmennafélagið Einherji | Stofnað 1929

  • Heim
  • Fréttir
  • Um félagið
    • Lög, reglur og áætlanir >
      • Foreldrahandbók
      • Siðareglur
      • Viðbragðsáætlun
      • Kennslu- og æfingaskrá
    • Stjórn
    • Merki Einherja
    • Sagan
    • Aðstaða til æfinga
    • Facebook- síða Einherja
  • Innganga í félagið
  • Heim
  • Fréttir
  • Um félagið
    • Lög, reglur og áætlanir >
      • Foreldrahandbók
      • Siðareglur
      • Viðbragðsáætlun
      • Kennslu- og æfingaskrá
    • Stjórn
    • Merki Einherja
    • Sagan
    • Aðstaða til æfinga
    • Facebook- síða Einherja
  • Innganga í félagið

Auglýst eftir þjálfara í afleysingar

21/10/2020

 
Picture
Ungmennafélagið Einherji auglýsir eftir leiðbeinanda í knattspyrnu til afleysinga frá og með 2. nóvember og fram að jólum. Um er að ræða þjálfun barna frá 6-15 ára eftir hádegi 4 daga vikunnar frá kl. 13:30 til 17:30. Athugið að æfingatími er misjafn milli daga en æfingatöfluna má sjá hér fyrir neðan. Laun eru eftir samkomulagi og áhugasamir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Víglund í síma 858 1079 fyrir miðvikudaginn 28. október næstkomandi.
Picture

Yfirlýsing frá stjórn einherja

8/10/2020

 
Picture
Líkt og komið hefur fram í fréttum er erlendur leikmaður í liði okkar grunaður um aðild að líkamsárás sl. laugardagskvöld. Líkamsárás þar sem grunur leikur á að hnífur hafi verið notaður. Samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur náð að afla sér vegna málsins er atburðarásin enn óskýr en þó höfum við fengið þær upplýsingar að til átaka hafi komið milli þriggja manna sem hafi endað með hörmulegum hætti.
Við viljum koma því á framfæri að samkvæmt okkar upplýsingum er rannsókn málsins enn á frumstigi. Við teljum því óvarlegt að tjá okkur meira um þetta mál að svo stöddu. Hvað varðar umræddan leikmann þá höfum við rætt við hann og fengið hans frásögn af málinu og er hún ekki í samræmi við það sem fréttaflutningur af málinu gefur til kynna. Engu að síður hefur verið tekin ákvörðun um að leikmaðurinn geri hlé á æfingum og keppni á meðan rannsókn stendur yfir.

Við biðjum alla að sýna okkur skilning vegna þessa en við ítrekum að okkur þykir leitt að nafn félagsins hafi verið dregið inn í þetta mál.

Virðingarfyllst,
Stjórn Einherja.

70 ár frá vígslu sundlaugarinnar í selárgljúfrum

13/8/2020

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Í dag, 13. ágúst, eru liðin 70 ár frá vígslu sundlaugarinnar í Selárgljúfrum, í Selárdal en hún var vígð sumarið 1950. Í daglegu tali er hún oft nefnd Sundlaugin í Selárdal, Selárlaug eða Selárdalslaug. Bygging hennar var í höndum Einherja og komu allar deildirnar að byggingu hennar.  A-deildin hafði verið starfandi lengst og hafði sundlaugamálið, eins og það er kallað í fundargerðum félagsins, verið félagsmönnum ofarlega í huga á fjórða og fimmta áratugnum. 
Elstu fundargerðir sem varðveist hafa eru frá árinu 1936 en strax þá er farið að ræða um að koma upp sundlaug í þorpinu. Um tíma var áætlað að reisa laugina neðan við Garðsklett en fljótlega var horfið frá þeim hugmyndum. Á árunum 1936 og fram yfir 1940 var miklu fé safnað í sundlaugasjóð frá ýmsum félagasamtökum og hreppsnefnd. Fjöldi manns starfaði í sundlauganefndum en lítið gerðist í málinu annað en að peningar söfnuðust og dagsverkum var heitið. Á fundi 1942 segir Björn Jóhannsson skólastjóri frá því að hugur íþróttanefndar ríkisins beinist að heitu uppsprettunni í Selárdal og uppbyggingu laugar þar. Ekki voru allir félagsmenn samþykkir þesusm stað og nefndu menn nýjan stað í þorpinu fyrir laugina - við frystihús Kaupfélagsins. 
Að lokum hófst framkvæmd við nýja laug í Selárgljúfrum í Selárdal sumarið 1947. A-deild hafði forgöngu í málinu en allar deildir lögðu fé og mannauð í verkið. Einnig fengust styrkir í verkið frá Hreppsnefnd Vopnafjarðar, Íþróttanefnd ríkisins og fleirum. Unnið var að byggingu laugarinnar og sundlaugarskála næstu sumur og var sundlaugin vígð með pompi og prakt sunnudaginn 13. ágúst árið 1950. Við vígsluna voru fluttar ræður, ungir Einherjar stungu sér til sunds og sýnt var boðsund. Þrátt fyrir að rigndi þennan dag gerðu menn sér glaðan dag og dansað var í tjaldi fram eftir nóttu. Þessi framkvæmd er dæmi um dug, metnað og samstöðu Einherja en sundlaugin var eign félagsins þar til sveitarfélagið tók að sér rekstur hennar.

Á þessum tíma var Sundlaugin í Selárgljúfrum eina heita laug Austurlands og var strax talin einn fallegasti baðstaður landsins. Laugin er Vopnfirðingum kær og geta þeir verið stoltir af forfeðrum sínum er lögðu mikið á sig til að geta tryggt ungum sem öldnum öruggan og góðan baðstað.
Picture
Picture
Picture

Vígsla á nýju vallarhúsi

12/7/2020

 
Picture
Víglundur Páll, formaður
Það eru margar stóru stundirnar í starfi hvers Ungmennafélags og ein slík var hjá Einherja síðastliðinn laugardag þegar nýtt vallarhús var vígt með viðhöfn. Þetta var hátíðleg stund sem lengi verður í minnum höfð, veðrið gott og andinn sem ríkti á svæðinu einstakur. Ný útsetning á Einherjalaginu frumflutt og einlægar ræður fluttar í tilefni dagsins.

Í tilefni dagsins bárust félaginu höfðinglegar gjafir og fyrir þær ber að þakka. Hrönn Róbertsdóttir færði félaginu málverk eftir Héðinn Þór, málað í Einherjalitum sem á eftir 
að finna stað í nýja húsinu. Ingólfur Sveinsson afhenti formanni félagsins, Víglundi Páli, peningagjöf frá Mælifelli í tilefni dagsins en sú gjöf var viðbót við áður veittan styrk frá fyrirtækinu sem hefur verið okkur innan handar í áraraðir. Við þökkum kærlega fyrir okkur og ykkur sem komuð á staðinn fyrir samveruna.

Stjórn Umf. Einherja

Kæru stuðningsmenn

4/5/2020

 
Picture
Mynd: MMÞ
Kæru stuðningsmenn!

Nú á tímum covid hefur félagið sett af stað tvær safnanir á facebook. Stjórn félagsins er gríðarlega þakklát öllum þeim sem hafa styrkt okkur á þessum erfiðu tímum. Það sannar sig enn og aftur að þegar í harðbakkann slær þá stöndum við saman, það gerðum við, gerum við og munum alltaf gera. Þetta lýsir félaginu okkar svo ótrúlega vel. 
Samheldnin og viljinn hjá öllum sem að félaginu koma, hvort sem það eru leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn, félagsmenn eða stuðningsmenn. Það eru allir að róa í sömu átt. Það vilja allir hjálpa og leggja sitt að mörkum, fyrir það erum við ótrúlega þakklát. Það horfir til bjartari tíma.

Í dag, 4. maí, getur íþróttastarf hafist að nýju. Yngri flokkar geta hafið æfingar að fullu án allra takmarkana en að sjálfsögðu þurfum við að passa vel upp á hreinlæti og annað slíkt. Það eru strangari reglur er varða meistaraflokkinn. Þar mega menn æfa 7 saman í hóp á ¼ af velli. Þar gildir ennþá tveggja metra reglan og engar snertingar leyfðar. Keppni hefst að öllu óbreyttu hjá yngri flokkum í byrjun júní. Við bíðum hinsvegar enn eftir leikjaplani og mótafyrirkomulagi. Hjá meistaraflokki hefst bikarkeppnin að öllu óbreyttu um 5-6. júní og deildin í kringum 20. júní. Sama saga þar, við bíðum enn eftir leikjaplani. Vonandi sjáum við sem flesta á vellinum í sumar.

Stjórn Einherja

Styrktarleikur Einherja

4/4/2020

 
Picture
Kæru stuðningsmenn. Eins og allir vita erum við að fara í gegnum erfiða tíma. Ungmennafélagið Einherji er ekki undanskilið þar. Því langar okkur að setja af stað styrktarleik Einherja og er markmið leiksins  að bæta aðsóknarmet á leik.

Til að fá miða á leikinn þarf að leggja inn 1000 kr. á reikning félagsins:

Kt: 610678-0259
Rknr: 0178-26-001004
​Málum sviðsmynd:

Fyrsti heimaleikur sumarsins. Það er ekta vopnfirskt vorveður, sól og blíða - þó kannski svolítið kalt. Það er enn smá snjór í fjöllum en fjallasýnin er jafnvel enn fegurri fyrir vikið.

​Völlurinn hefur komið vel undan vetri. Lyktin af ný slegnu grasinu liggur í loftinu. Stuðningsmennirnir mæta hver á eftir öðrum á völlinn og koma sér fyrir í klettunum. Það er spenna í loftinu. Stuðningsmenn ræða saman yfir rjúkandi heitu kaffinu og allir virðast hafa það á tilfinningunni að krefjandi en skemmtilegt og gjöfult tímabil sé í vændum.

​Við hvetjum alla sem geta til að mæta og taka þátt svo við getum bætt metið.
Um leið viljum við þakka fyrir stuðninginn í gegnum súrt og sætt.

Fréttir af æfingum í skugga samkomubanns

14/3/2020

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Hér að neðan er yfirlýsing frá stjórn Einherja:

Í ljósi þess að samkomubann tekur gildi á miðnætti annað kvöld er mikilvægt að huga að æfingum félagsins. Eins og þetta lítur út í dag er félaginu heimilt að halda úti æfingum ef iðkendur eru færri en 20 í hóp. 

​Við munum halda okkar striki þangað til annað kemur í ljós. 
​Hins vegar er staðan endurskoðuð daglega og því munum við líkt og aðrir vera á varðbergi. Við tökum þessu alvarlega og munum fara eftir tilmælum almannavarna og landlæknis. Stjórn félagsins mun um helgina fara yfir æfingatöflu og eru líkur á að hún verði með breyttu sniði, jafnvel færri æfingar og styttri til að koma i veg fyrir að hópar blandist.

KSÍ frestar öllum leikjum

13/3/2020

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

KSÍ hefur ákveðið að fresta öllum knattspyrnuleikjum næstu vikurnar vegna kórónaveirunnar. Það er því ljóst að leikir Einherja í Lengjabikarnum verða ekki leiknir næstu helgar og ólíklegt er yfirhöfuð að Lengjubikarinn verði kláraður. Hér að neðan má sjá yfirlýsingu KSÍ:
„Íslensk yfirvöld hafa ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur (samkomubann) frá og með miðnætti sunnudaginn 15. mars. Samkomubannið gildir í fjórar vikur frá þeim tímapunkti og nær yfir samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Á viðburðum þar sem færri koma saman er gert ráð fyrir því að tveir metrar séu milli fólks.
Vegna þessa ákvað stjórn KSÍ á fundi sínum í dag að fresta öllum leikjum á vegum KSÍ, sem og landsliðsæfingum og tengdum viðburðum á fyrrgreindu tímabili. Ákvörðunin tekur gildi frá og með deginum í dag, 13. mars. Stjórn KSÍ hvetur aðildarfélögin til að fara í öllu eftir tilmælum stjórnvalda varðandi útfærslu á sínu starfi, viðburðum og æfingahaldi. 
Ákvörðun um hvort umspilsleik A landsliðs karla um mögulegt sæti í lokakeppni EM 2020, og öðrum landsleikjum sem áætlaðir eru dagana 23.-31. mars næstkomandi, verði frestað, bíður niðurstöðu fundar UEFA sem fram fer á þriðjudag. Á fundinum verða fulltrúar allra aðildarlanda UEFA, auk fulltrúa evrópskra félagsliða og annarra hagsmunaaðila.“

aSHLEY CIVIL ER NÝR ÞJÁLFARI MEISTARAFLOKKS KARLA

9/12/2019

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Ungmennafélagið Einherji og Bretinn Ashley Civil hafa náð samkomulagi um að Ashley taki að sér þjálfun meistaraflokks karla sumarið 2020. 

Ash er 28 ára gamall og hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við. Hann hefur þjálfað í Kína, Nígeríu, Bandarikjunum og Tælandi auk heimalandsins. Auk reynslunnar er Ash með UEFA-A þjálfaragráðu.

Ash hefur störf strax og er væntanlegur til Vopnafjarðar í janúar. Hann lýsir sjálfum sér sem gríðarlega metnaðarfullum þjálfara sem leggur mikið á sig og gerir sömu kröfur til leikmanna. 

Félagið bindur miklar vonir við Ash og hlakkar til samstarfsins og komandi sumars.


Sumarið gert upp: lokahóf

26/9/2019

 
Picture
Todor, Donni, Heiðar og Bjartur
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Lokahóf meistaraflokks karla var haldið á Hótel Tanga föstudagskvöldið 20. september. Leikmenn voru fljótir að hrista af sér tapið gegn KF og skemmtu sér konunglega fram eftir kvöldi. Það er mikilvægt að geta skemmt sér og gert sumarið upp saman. Það er hefð fyrir því að veita viðurkenningar fyrir besta leikmann, þann markahæsta, efnilegasta og sérstakar viðurkenningar fyrir markafjölda á lokahófi. 


​Sigurður Donys Sigurðsson hlaut viðurkenningu fyrir 150 spilaða leiki með Einherja en hann nálgast nú 200 leiki. Todor Hristov fékk viðurkenningu fyrir flest skoruð mörk fyrir Einherja í sumar en hann skoraði ellefu mörk. Heiðar Snær Ragnarsson var valinn efnilegasti leikmaðurinn en hann er sautján ára gamall. Þá fékk Bjartur Aðalbjörnsson viðurkenningu fyrir að vera besti leikmaður sumarsins að mati liðsfélaga sinna. Hamingjuóskir til þeirra.


Bjartur Aðalbjörnsson - bestur
Heiðar Snær Ragnarsson - efnilegastur
Todor Hristov - markahæstur
Sigurður Donys Sigurðsson - 150 leikir spilaðir
Það er að vissu leyti nokkuð undarlegur siður að verðlauna einn leikmann umfram annan fyrir árangur, í hópíþrótt - liðið er jú ein heild. En auðvitað getur það reynst hvatning að vera verðlaunaður fyrir góðan árangur. Eins getur það verið hvatning fyrir þá sem ekki hreppa verðlaunin til að bæta sig og gera betur. En þegar öllu er á botninn hvolft eru það ekki einstaklingsverðlaunin sem skipta mestu máli heldur bragur liðsins inni á vellinum. Drengirnir í meistaraflokki Einherja fengu engin verðlaun sem lið í sumar. En það er kannski komið að því; að vinna til verðlauna í 3. deild. Sjáum til á næsta ári.
<<Previous
Forward>>

    RSS Feed

Litla liðið með stóra appelsínugula hjartað!

Ábyrgðarmaður heimasíðu: 
Bjartur Aðalbjörnsson
​bjartur@einherji.net