Ungmennafélagið Einherji | Stofnað 1929

  • Heim
  • Fréttir
  • Um félagið
    • Lög, reglur og áætlanir >
      • Foreldrahandbók
      • Siðareglur
      • Viðbragðsáætlun
      • Kennslu- og æfingaskrá
    • Stjórn
    • Merki Einherja
    • Sagan
    • Aðstaða til æfinga
    • Facebook- síða Einherja
  • Innganga í félagið
  • Heim
  • Fréttir
  • Um félagið
    • Lög, reglur og áætlanir >
      • Foreldrahandbók
      • Siðareglur
      • Viðbragðsáætlun
      • Kennslu- og æfingaskrá
    • Stjórn
    • Merki Einherja
    • Sagan
    • Aðstaða til æfinga
    • Facebook- síða Einherja
  • Innganga í félagið

Ingvi nýr þjálfari meistaraflokks karla

11/10/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Í dag var undirritaður samningur milli Einherja og Ingva Ingólfssonar þess efnis að Ingvi taki við þjálfun meistaraflokks karla hjá félaginu frá deginum í dag og stýri liðinu út næsta sumar.

Ingvi er Vopnfirðingum kunnur enda lék hann með Einherjaliðinu seinnipart sumars. 
Ingvi er 29 ára gamall Hornfirðingur og fékk sitt knattspyrnuuppeldi hjá Sindra. Hann hóf sinn meistaraflokksferil árið 2009 og lék með liðinu allt til 2017 er hann tók sér pásu frá fótbolta en tók skóna aftur af hillunni 2018 og lék þá hálft tímabili með Leikni F. Árið 2019 var hann svo ráðinn spilandi þjálfari Sindra en því hlutverki gegndi hann fram á mitt sumar 2020. Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla hefur hann komið að þjálfun yngri flokka auk þess að þjálfa meistaraflokk kvenna eitt sumar. 

Ingvi er með UEFA-B þjálfaragráðu og hyggst halda áfram og sækja sér UEFA-A réttindi við tækifæri. Þá er hann með BS-gráðu í íþróttafræði og MEd-gráðu í menntunarfræðum. 

Einherji býður Ingva velkominn til starfa en hans fyrsta verk verður að raða saman í lið fyrir næsta tímabil. Ljóst er að einhverjar breytingar verða á hópnum en vonandi verður hægt að tilkynna um framhaldið sem fyrst.

​Áfram Einherji!

hausthvatning formanns

21/9/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Hífandi rok og rigningardropar berja nú á Valhöll – vallarhúsinu okkar – og völlurinn tómur. Leikmenn og stuðningsmenn hafa fengið frí í bili. Það er komið haust og bráðum kemur vetur. Að baki er viðburðaríkt sumar í kvenna- og karlaflokki. Auðvitað hefðum við viljað endað sumarið öðruvísi karlamegin en það er eins og það er. 
Út af fyrir sig var það sigur fyrir okkur að stilla fram liði í báðum flokkum. Af því erum við stolt. 

Nú á næstu dögum og vikum líta stjórnendur félagsins yfir öxl til að taka það inn sem hægt er að læra af líðandi sumri. Það borgar sig þó ekki að dvelja of lengi í fortíðinni því framundan er vetrarstarf og undirbúningur fyrir næsta sumar. Kvennamegin gerum við ráð fyrir enn öflugra liði í 2. deildinni – liði sem gerir atlögu að úrslitakeppni. Karlamegin ætlum við okkur að sjálfsögðu beint aftur upp úr 4. deildinni. Við höfum gert það áður og við gert það aftur. 

Til þess að ná þessum markmiðum þurfa stjórnarmenn að vinna hröðum höndum nú á haustdögum og leggja fram drög að plani fyrir næsta sumar. Vonandi verða það plön sem tryggja sem flesta okkar leikmenn í sessi hjá Einherja. Við megum ekki við því að missa marga. Án heimafólksins okkar – hvort sem það er karla- eða kvennamegin – erum við ekkert.

Það er bjart framundan þó skyggja taki nú á haustdögum. Með hækkandi sól fer boltinn að rúlla að nýju og áður en við vitum af verðum við mætt aftur í blíðskaparveðri á Vopnafjarðarvelli til að fylgjast með piltum og stúlkum leika íþróttina sem okkur þykir svo vænt um. 

Áfram Einherji!

Jón Orri nýr þjálfari mfl. karla

13/7/2021

 
Picture
Jón Orri ásamt Bjarti, formanni
Nú rétt í þessu skrifaði Jón Orri Ólafsson undir samning við Einherja um að stýra liði meistaraflokks karla út tímabilið.

Jón Orri er Vopnfirðingum vel kunnur enda búsettur hér og fyrrum leikmaður og þjálfari félagsins. Jón lék síðast með Einherja sumarið 2014 en þjálfaði liðið sumarið 2018 með góðum árangri. 
Það sumar endaði liðið í 6. sæti deildarinnar, aðeins 4 stigum frá toppsætinu, ásamt því að fara í skemmtilegt bikarævintýri sem endaði í Vestmannaeyjum.

Með Jóni Orra koma tveir fyrrum leikmenn inn í þjálfarateymið og verða honum innan handar; þeir Símon Svavarsson og Ívar Örn Grétarsson. Stjórn Einherja er virkilega spennt fyrir ráðningunni sem og Jón Orri sjálfur. Hann hefur störf strax í dag og mun stýra liðinu gegn KFG í Garðabænum um næstu helgi.

​Áfram Einherji!

Sumarpistill formanns

22/4/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Ágætu félagar. 

Í vikunni nötraði fótboltaheimurinn vegna áætlana tólf stórra fótboltafélaga í Evrópu um stofnun sérstakrar ofurdeildar. Plön félaganna og eigenda þeirra féllu í grýttan jarðveg hjá leikmönnum, starfsmönnum, sparkspekingum, þjálfurum og stjórnmálamönnum. 
En mestu mótstöðunni mættu félögin hjá stuðningsmönnum sínum – og það var að lokum sameiginleg andstaða stuðningsmanna allra félaga sem fékk stjórnendur liðanna til að snúa ákvörðunum sínum við og hætta við ofurdeildina. Stuðningsmenn veifuðu borðum og flöggum með þeim skilaboðum að fótboltinn hafi verið skapaður af alþýðunni en þeir ríku hefðu nú endanlega stolið íþróttinni.

Fótboltinn er nefnilega alþýðuíþrótt sem hægt er að stunda hvar sem er og allir hafa aðgang að. Á Vopnafirði hefur hún verið stunduð frá fyrri parti 20. aldar. Innan Einherja hefur hún verið iðkuð alla tíð þó skipulagðar æfingar hafi ekki hafist fyrr en eftir miðja síðustu öld. Það er ástæða fyrir því að fótboltinn er fyrirferðamikill innan Ungmennafélagsins Einherja en áhuginn spratt frá börnum sem léku sér með bolta á hverjum sléttum bletti sem fannst í kauptúni og sveit. Og þetta íþróttafólk varð grunnurinn að skipulögðum æfingum félagsins.

Árið 1974 sendi Einherji í fyrsta skipti lið til keppni á Íslandsmót í fótbolta og höfum við gert það nær öll ár síðan en sumarið í ár er fertugasta sumarið sem Einherji sendir lið til keppni á Íslandsmót karla. Árið 1990 tefldi Einherji fyrst fram liði á Íslandsmóti kvenna og hefur það verið gert 13 sinnum í heildina. Nú ætlum við að gera það í fjórtánda skipti. 

Það er sama hvort það er í kvenna- eða karlaflokki; liðin hafa í gegnum tíðina mestmegnis verið byggð upp af heimafólki. Auðvitað hafa leikmenn og þjálfarar oft verið sóttir út fyrir Vopnafjörð til að bæta við hópinn eða fylla upp í en kjarninn hefur alltaf verið vopnfirskur. Við höfum búið að öflugu yngriflokkastarfi síðustu áratugi og hefur það skilað sér upp í meistaraflokka félagsins. Kvennamegin búum við enn vel því liðið í ár verður nær einungis mannað heimastúlkum. Upp úr yngriflokkunum er að koma öflugur hópur stúlkna sem Vopnfirðingar hafa fengið að fylgjast með í 3. og 4. flokki undanfarin sumur. 

Karlamegin er staðan verri og erfiðara er að manna lið. Fáir piltar hafa komið upp úr yngriflokkum félagsins síðustu ár og ekki er von á mörgum á næstu árum. Á sama tíma hafa heimastrákar yfirgefið Einherja til að leika með öðrum liðum sem er mikið högg. Í liði sumarsins verða að sjálfsögðu kunnugleg andlit en þurfum við að sækja allmarga leikmenn að með tilheyrandi kostnaði og tilstandi. Það má þó taka fram að það er alltaf ánægjulegt að sjá ný andlit á Vopnafjarðarvelli og bjóðum við alla okkar nýju leikmenn hjartanlega velkomna til Einherja.

Nú í maí á Einherji von á 11-13 manns sem hingað koma til að leika fótbolta með félaginu og er það blanda af Íslendingum og útlendingum. Aldrei fyrr höfum við fengið jafn marga leikmenn að. Í dag er félagið komið í þá stöðu að til þess að manna liðin þarf að sækja svo marga leikmenn. Þessum leikmönnum okkar þarf að finna vinnu, húsnæði, innbú og allt sem því fylgir. Þetta er krefjandi verkefni sem krefst skipulags og er allt vinna unnin af sjálfboðaliðum félagsins. Auðvitað er það ekkert nýtt að leikmenn komi hingað til sumardvalar og hafa fyrri stjórnarmenn og velunnarar þurft að standa í svipuðum verkefnum, en nú sem aldrei fyrr.

Það er ánægjulegt og eftirtektarvert að 650 manna byggðarlag geti sent lið til keppni í karla- og kvennaflokki. Félagið okkar - og þar með Vopnafjörður - fær athygli um allt land vegna þessa afreks okkar. Einherji er þekkt félag sem gríðarmargir hafa taugar til. Við gefumst aldrei upp þó móti blási og stöndum í lappirnar í blindbyl og hríð. Og nú á sumardaginn fyrsta léttir til og hríðin víkur – í bili a.m.k. Gras tekur að grænka, hingað streymir fótboltafólk úr öllum áttum, sólin hækkar, nóttina birtir og Einherji springur út í öllum sínum blóma. 

Kæru félagar. Við hlökkum til enn eins sumarsins með ykkur. Við þurfum á öllum ykkar stuðningi að halda, hvort sem það er á leikdag eða öðrum dögum. Róðurinn er þungur en þegar allir leggjast á árar verður hann léttari. Einherji er ekki á leið í neina ofurdeild. Við erum ungmennafélag sem byggt er upp af samtakamætti samfélagsins. Við þekkjum hvorki græðgi né peningagirnd. Það sem við þekkjum er fótbolti.

​Gleðilegt sumar.

Ný stjórn Einherja

25/3/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Mánudaginn 15. mars var aukaaðalfundur félagsins haldinn. Var þessi fundur settur á dagskrá af aðalfundi félagsins vegna erfiðleika við að mynda stjórn. 

Dagskrá fundarins var nokkuð hefðbundin. Fámennt var en góðmennt og stjórnaði Aðalbjörn fundi. Formaður flutti skýrslu stjórnar snaggaralega og greindi frá þeim verkefnum sem stjórnin hafði á sínum snærum þennan eina og hálfa mánuð sem hún starfaði. Voru þar fyrirferðarmest málefni meistaraflokkanna en þar var róðurinn þungur. Það tókst þó að lokum að ráða þjálfara fyrir báða flokka og manna liðin. Önnur minni verkefni fór formaður yfir, m.a. fjáraflanir og getraunahópinn.
Engar tillögur að lagabreytingum bárust fyrir fundinn og var því farið í kosningu stjórnar. Formaður lagði fram tillögu að nýrri stjórn og var sú tillaga samhljóða samþykkt. Í nýrri stjórn eru Bjartur Aðalbjörnsson, formaður, Arnar Ingólfsson, ritari, Dagný Steindórsdóttir, gjaldkeri og Jón Ragnar Helgason og Hrafnhildur Helgadóttir meðstjórnendur. Varamenn eru Aðalbjörn Björnsson og Víglundur Páll Einarsson.

Það má segja að fundarstjórn hafi verið hröð en vandleg og var fundi slitið eftir 19 mínútur. Eftir það sátu fundarmenn og spjölluðu saman um starf og framtíð félagsins.

Aukaaðalfundur 15. mars

7/3/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Boðað er til aukaaðalfundar Umf. Einherja mánudagskvöldið 15. mars kl. 20:00 í Einherjaheimilinu. 

Á aðalfundi félagsins, 26. janúar sl., var samþykkt að halda aukaaðalfund eigi síðar en 15. mars. Var það ákveðið vegna þess hversu erfitt var að finna fólk til að starfa í stjórn félagsins. Á aðalfundi var kosin stjórn til bráðabirgða, fram að aukaaðalfundi. 

Nýir félagar velkomnir!
Dagskrá aðalfundar:

1. Formaður setur fundinn.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
5. Lagabreytingar.
7. Kosning stjórnar.
8. Önnur mál.

BLÓM OG KÖKUR FYRIR KONUDAGINN

15/2/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Konudagurinn er nk. sunnudag og eins og vanalega býður félagið Vopnfirðingum blóm og kökur til sölu. Það er upplagt fyrir fólk að gleðja konurnar í lífi sínu með köku og blómum frá Einherja. 

Líkt og í fyrra kostar kakan 4500 og hægt er að velja á milli súkkulaði og marsípan. Blóm og kaka kosta saman 6500 en einnig er hægt að kaupa staka blómvendi. Lítill vöndur kostar 2500 en stór 4000.
Hægt er að leggja inn pöntun með því að hafa samband við Bjart, Víglund, Hrafnhildi, Jón eða Arnar á messenger eða í síma. Pantanir á blómum og kökum skulu berast fyrir kl. 18 á miðvikudag.  

Afhending á blómum og kökum er í Einherjaheimilinu milli 10 og 12 á sunnudag en á þeim tíma er blómasala einnig opin. 

Skíðaganga, getraunastarf, kaffi og kruðerí

12/2/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Á morgun, laugardag, ætlum við að hafa líflegt hjá okkur á íþróttasvæðinu. Gönguskíðafæri á svæðinu er með ágætum þessa dagana og vonandi verður það þannig á morgun. Þess vegna viljum við bjóða gönguskíðafólki að nýta sér vellina til göngu. Á neðri vellinum verður troðin braut allan stóra hringinn en einnig getur fólk nýtt sér efri völlinn. 



Einherjaheimilið verður opið gönguskíðafólki, sem og öðrum gestum og gangandi, frá kl. 9 til 14. Þar getur fólk nýtt sér búningsklefa, salernisaðstöðu og þegið heitt kaffi og kruðerí eftir erfiða göngu. Vonandi verða aðstæður góðar til skíðagöngu.

Klukkan 11 hefst svo getraunastarfið - venju samkvæmt - og hvetjum við fólk til þess að líta við og kynna sér starfið. Við þurfum nauðsynlega að fjölga í hópnum. 

Vonumst til að sjá sem flesta!

Harðfiskur til sölu

8/2/2021

 
Picture
Einn af hornsteinum Ungmennafélagsins er stuðningur Vopnfirðinga nær og fjær. Við treystum á félaga okkar þegar kemur að fjáröflunum. Í gegnum tíðina höfum við tekið upp á ýmsu, félaginu til tekna. Sumar fjáraflanir haldast alltaf inni en aðrar breytast milli ára, eða leggjast af. 

Framundan hjá okkur í febrúar er sala á harðfiski frá Eyjabita. Til sölu eru bæði bitar í 70 gr. pokum og flök í 200 gr. pokum. Bitarnir kosta 1200 kr. en flökin 2500 kr.

Gengið verður í hús í vikunni en einnig er hægt að panta með því að hafa samband við einhvern úr stjórninni og verður harðfisknum þá keyrt heim. 
Þeir sem eru utan Vopnfjarðar geta líka keypt og reynum við þá að koma fisknum til ykkar eins fljótt og auðið er. Hægt er að hafa samband í gegnum síma eða facebook.

Bjartur - 843 9759
Arnar - 848 3573
Jón Ragnar - 899 1197
Hrafnhildur - 690 2543
Villi - 858 1079

Einherjasokkar og treflar til sölu í gunnubúð

5/2/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Nú er hægt að kaupa Einherjavarning hjá Gunnu í Gunnubúð - eða Anný eins verslunin kallast einnig. 

​Til að byrja með verða til sölu sokkar og treflar. Nóg er af sokkum í barnastærðum - stærðum 30-32 og 33-35.

Varningurinn er á sama verði og áður: 3000 krónur fyrir þriggja para pakka af sokkum og 3000 krónur fyrir Einherjatrefil.

Vonandi getum við bætt við fjölbreyttari varningi á næstunni. En þangað til getið þið gert ykkur ferð til Gunnu og kíkt á það sem til er. Hjá Gunnu er opið alla virka daga kl. 13-16.
<<Previous
Forward>>

    RSS Feed

Litla liðið með stóra appelsínugula hjartað!

Ábyrgðarmaður heimasíðu: 
Bjartur Aðalbjörnsson
​bjartur@einherji.net
Picture
Picture