Ungmennafélagið Einherji | Stofnað 1929

  • Heim
  • Fréttir
  • Um félagið
    • Lög, reglur og áætlanir >
      • Foreldrahandbók
      • Siðareglur
      • Viðbragðsáætlun
      • Kennslu- og æfingaskrá
    • Stjórn
    • Merki Einherja
    • Sagan
    • Aðstaða til æfinga
    • Facebook- síða Einherja
  • Innganga í félagið
  • Heim
  • Fréttir
  • Um félagið
    • Lög, reglur og áætlanir >
      • Foreldrahandbók
      • Siðareglur
      • Viðbragðsáætlun
      • Kennslu- og æfingaskrá
    • Stjórn
    • Merki Einherja
    • Sagan
    • Aðstaða til æfinga
    • Facebook- síða Einherja
  • Innganga í félagið

Sumarpistill formanns

22/4/2021

 
Picture
Bjartur Aðalbjörnsson skrifar:

Ágætu félagar. 

Í vikunni nötraði fótboltaheimurinn vegna áætlana tólf stórra fótboltafélaga í Evrópu um stofnun sérstakrar ofurdeildar. Plön félaganna og eigenda þeirra féllu í grýttan jarðveg hjá leikmönnum, starfsmönnum, sparkspekingum, þjálfurum og stjórnmálamönnum. 
En mestu mótstöðunni mættu félögin hjá stuðningsmönnum sínum – og það var að lokum sameiginleg andstaða stuðningsmanna allra félaga sem fékk stjórnendur liðanna til að snúa ákvörðunum sínum við og hætta við ofurdeildina. Stuðningsmenn veifuðu borðum og flöggum með þeim skilaboðum að fótboltinn hafi verið skapaður af alþýðunni en þeir ríku hefðu nú endanlega stolið íþróttinni.

Fótboltinn er nefnilega alþýðuíþrótt sem hægt er að stunda hvar sem er og allir hafa aðgang að. Á Vopnafirði hefur hún verið stunduð frá fyrri parti 20. aldar. Innan Einherja hefur hún verið iðkuð alla tíð þó skipulagðar æfingar hafi ekki hafist fyrr en eftir miðja síðustu öld. Það er ástæða fyrir því að fótboltinn er fyrirferðamikill innan Ungmennafélagsins Einherja en áhuginn spratt frá börnum sem léku sér með bolta á hverjum sléttum bletti sem fannst í kauptúni og sveit. Og þetta íþróttafólk varð grunnurinn að skipulögðum æfingum félagsins.

Árið 1974 sendi Einherji í fyrsta skipti lið til keppni á Íslandsmót í fótbolta og höfum við gert það nær öll ár síðan en sumarið í ár er fertugasta sumarið sem Einherji sendir lið til keppni á Íslandsmót karla. Árið 1990 tefldi Einherji fyrst fram liði á Íslandsmóti kvenna og hefur það verið gert 13 sinnum í heildina. Nú ætlum við að gera það í fjórtánda skipti. 

Það er sama hvort það er í kvenna- eða karlaflokki; liðin hafa í gegnum tíðina mestmegnis verið byggð upp af heimafólki. Auðvitað hafa leikmenn og þjálfarar oft verið sóttir út fyrir Vopnafjörð til að bæta við hópinn eða fylla upp í en kjarninn hefur alltaf verið vopnfirskur. Við höfum búið að öflugu yngriflokkastarfi síðustu áratugi og hefur það skilað sér upp í meistaraflokka félagsins. Kvennamegin búum við enn vel því liðið í ár verður nær einungis mannað heimastúlkum. Upp úr yngriflokkunum er að koma öflugur hópur stúlkna sem Vopnfirðingar hafa fengið að fylgjast með í 3. og 4. flokki undanfarin sumur. 

Karlamegin er staðan verri og erfiðara er að manna lið. Fáir piltar hafa komið upp úr yngriflokkum félagsins síðustu ár og ekki er von á mörgum á næstu árum. Á sama tíma hafa heimastrákar yfirgefið Einherja til að leika með öðrum liðum sem er mikið högg. Í liði sumarsins verða að sjálfsögðu kunnugleg andlit en þurfum við að sækja allmarga leikmenn að með tilheyrandi kostnaði og tilstandi. Það má þó taka fram að það er alltaf ánægjulegt að sjá ný andlit á Vopnafjarðarvelli og bjóðum við alla okkar nýju leikmenn hjartanlega velkomna til Einherja.

Nú í maí á Einherji von á 11-13 manns sem hingað koma til að leika fótbolta með félaginu og er það blanda af Íslendingum og útlendingum. Aldrei fyrr höfum við fengið jafn marga leikmenn að. Í dag er félagið komið í þá stöðu að til þess að manna liðin þarf að sækja svo marga leikmenn. Þessum leikmönnum okkar þarf að finna vinnu, húsnæði, innbú og allt sem því fylgir. Þetta er krefjandi verkefni sem krefst skipulags og er allt vinna unnin af sjálfboðaliðum félagsins. Auðvitað er það ekkert nýtt að leikmenn komi hingað til sumardvalar og hafa fyrri stjórnarmenn og velunnarar þurft að standa í svipuðum verkefnum, en nú sem aldrei fyrr.

Það er ánægjulegt og eftirtektarvert að 650 manna byggðarlag geti sent lið til keppni í karla- og kvennaflokki. Félagið okkar - og þar með Vopnafjörður - fær athygli um allt land vegna þessa afreks okkar. Einherji er þekkt félag sem gríðarmargir hafa taugar til. Við gefumst aldrei upp þó móti blási og stöndum í lappirnar í blindbyl og hríð. Og nú á sumardaginn fyrsta léttir til og hríðin víkur – í bili a.m.k. Gras tekur að grænka, hingað streymir fótboltafólk úr öllum áttum, sólin hækkar, nóttina birtir og Einherji springur út í öllum sínum blóma. 

Kæru félagar. Við hlökkum til enn eins sumarsins með ykkur. Við þurfum á öllum ykkar stuðningi að halda, hvort sem það er á leikdag eða öðrum dögum. Róðurinn er þungur en þegar allir leggjast á árar verður hann léttari. Einherji er ekki á leið í neina ofurdeild. Við erum ungmennafélag sem byggt er upp af samtakamætti samfélagsins. Við þekkjum hvorki græðgi né peningagirnd. Það sem við þekkjum er fótbolti.

​Gleðilegt sumar.

Comments are closed.

    RSS Feed

Litla liðið með stóra appelsínugula hjartað!

Ábyrgðarmaður heimasíðu: 
Bjartur Aðalbjörnsson
​bjartur@einherji.net
Picture
Picture